Golf

Segir að stuðnings­menn Banda­ríkjanna hafi farið yfir strikið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Collin Morikawa fannst stuðningsmenn Bandaríkjanna ganga of langt í Ryder-bikarnum.
Collin Morikawa fannst stuðningsmenn Bandaríkjanna ganga of langt í Ryder-bikarnum. epa/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Collin Morikawa segir að stuðningsmenn bandaríska liðsins hafi líklega farið yfir strikið með framkomu sinni á Ryder-bikarnum um þarsíðustu helgi.

Evrópa vann Ryder-bikarinn sem fór fram á Bethpage Black golfvellinum í New York. Stuðningsmenn Bandaríkjanna létu ófriðlega á meðan keppni stóð, sérstaklega við Rory McIlroy. Þá var glösum kastað í eiginkonu hans, Ericu. McIlroy sagði að framkoma stuðningsmanna Bandaríkjanna hefði verið óásættanleg.

Grínistinn Heather McMahan, sem var fengin til að vera þulur á Ryder-bikarnum, baðst afsökunar á framkomu sinni en hún hvatti stuðningsmenn Bandaríkjanna til að láta McIlroy og félaga í evrópska liðinu heyra það. McMahan var ekki við störf á þriðja og síðasta degi Ryder-bikarsins.

Fyrir Ryder-bikarinn óskaði Morikawa eftir því að stuðningsmenn Bandaríkjanna þyrluðu upp ryki og yrðu með læti. Hann segir nú að stuðningsmennirnir hafi líklega gengið of langt.

„Það á að vera mikil orka á Ryder-bikarnum og þegar ég talaði um óreiðu bað ég stuðningsmennina ekki um að vera dónalega. Ég á ekki að eigna mér það þegar fólk er dónalegt,“ sagði Morikawa.

Bandaríska liðið var í miklum vandræðum fyrstu tvo keppnisdagana í Ryder-bikarnum en kom til baka á þeim þriðja og úr varð spennandi keppni. En Evrópa hafði betur, 15-13, og vann Ryder-bikarinn á bandarískri grundu í fyrsta sinn í þrettán ár.


Tengdar fréttir

„Ertu að horfa Donald Trump?“

Kylfingarnir í liði Evrópu sungu sigursöngva eftir að hafa unnið Bandaríkin í New York í gær, í Ryder-bikarnum í golfi, og sungu meðal annars til Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem svaraði þeim.

Sagði áhorfanda að nagl­halda kjafti

Rory McIlroy fékk sig fullsaddan af frammíköllum bandarískra áhorfenda á Ryder-bikarnum í dag þegar hann svaraði þeim fullum hálsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×