Fótbolti

„Enginn vissi hvað ég var að ganga í gegnum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rodrigo Goes virtist vera úti í kuldanum hjá Carlo Ancelotti hjá Real Madrid á síðasta tímabili en fáir vissu hvað gekk á utan vallar.
Rodrigo Goes virtist vera úti í kuldanum hjá Carlo Ancelotti hjá Real Madrid á síðasta tímabili en fáir vissu hvað gekk á utan vallar. Getty/Alvaro Medranda

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Rodrygo var á leiðinni frá Real Madrid í haust, ef marka má spænska fjölmiðla, en hélt kyrru fyrir. Það lá líka miklu meira að baki því hversu lítið hann fékk að spila með spænska félaginu á síðustu leiktíð.

Rodrygo fór hvergi og hefur nú opnað sig um það sem gekk á hjá honum síðasta vetur.

„Ég upplifði persónulega afar erfiða tíma á síðasta tímabili. Ég talaði ekki við neinn í lífi mínu í langan tíma,“ sagði Rodrygo í viðtali við spænska íþróttablaðið AS.

„Enginn vissi hvað ég var að ganga í gegnum. Þetta var mjög erfiður tími. Mér leið hvorki vel líkamlega né andlega,“ sagði Rodrygo.

„Ancelotti hjálpaði mér mikið, því hann sá á hverjum degi að mér leið ekki vel. Hann sá að ég væri ekki í standi til að spila og að ég gæti því ekki hjálpað liðinu,“ sagði Rodrygo.

„Það var heldur enginn tími til að jafna sig því við spiluðum á þriggja daga fresti og þá getur maður ekki stoppað til að leysa vandamálið. „Ancelotti sá að ég er venjuleg manneskja og átti við raunveruleg vandamál að stríða. Hann skildi flóknar aðstæður mínar,“ sagði Rodrygo.

„Carlo sagði við mig: Vertu bara rólegur hérna. Þú ert ekki í standi til að spila núna. Ég þakkaði honum og bað um að fá að spila, en þannig vissi hann að hann þyrfti að ná manneskjunni aftur á strik áður en hann næði út leikmanninum,“ sagði Rodrygo.

„Þetta var mjög erfiður tími í lífi mínu en núna hef ég sigrast á öllu og ég er í lagi. Hvenær sem ég get, þakka ég Carletto, syni hans Davide og þjálfarateyminu. Allir hjálpuðu mér, og auðvitað fjölskyldan mín. Núna finn ég bara fyrir gleði, ég er hamingjusamur, mjög áhugasamur um að eiga frábært tímabil“, sagði Rodrygo í samtali við AS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×