Golf

Fyrir­liði Evrópu baunar á Banda­ríkin: „Drifnir á­fram af ein­hverju sem peningar geta ekki keypt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Donald á opnunarhátíð Ryder-bikarsins.
Luke Donald á opnunarhátíð Ryder-bikarsins. epa/Luke Donald

Luke Donald, fyrirliði evrópska liðsins, skaut á bandaríska liðið á opnunarhátíð Ryder-bikarsins í golfi. Talsvert hefur verið rætt um launin sem Bandaríkjamenn fá fyrir að keppa í Ryder-bikarnum.

„Við erum drifnir áfram af einhverju sem peningar geta ekki keypt,“ sagði Donald á opnunarhátíðinni í gær. Ryder-bikarinn hefst á föstudaginn og lýkur á laugardaginn.

Mikið hefur verið rætt og ritað um launin sem leikmenn bandaríska liðsins fá fyrir að taka þátt í Ryder-bikarnum. 

Allir tólf kylfingarnir í bandaríska liðinu, auk fyrirliðans Keegans Bradley, fá fimm hundruð þúsund Bandaríkjadala fyrir að keppa í Ryder-bikarnum en þar af fara þrjú hundruð þúsund af þeirri upphæð til góðgerðamála. 

Nokkrir leikmenn Bandaríkjanna hafa tilkynnt að þeir ætli að gefa öll launin sem þeir fá til góðgerðamála en Donald nýtti samt tækifærið í gær og baunaði á bandaríska liðið.

„Ryder-bikarinn snýst ekki um verðlaunafé eða stig á heimslistanum. Þetta snýst um stolt,“ sagði Donald sem var einnig fyrirliði Evrópu í Ryder-bikarnum fyrir tveimur árum. Evrópska liðið vann þá sigur á Ítalíu. 

Evrópa hefur unnið tíu af síðustu fjórtán Ryder-titlum og freista þess nú að vinna titilinn í fimmta sinn á bandarískri grundu.

Ryder-bikarinn verður í beinni útsendingu á Sýn Sport 4 föstudag, laugardag og sunnudag. Hér má sjá lista yfir allar beinar útsendingar á íþróttarásum Sýnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×