Menning

Með Banksy í stofunni heima

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Snæfríður Tindsdóttir fékk Banksy verk að gjöf frá móður sinni.
Snæfríður Tindsdóttir fékk Banksy verk að gjöf frá móður sinni. SAMSETT

„Mamma er listsafnari og mjög dugleg að spotta alls konar sniðugt,“ segir klínískri barnasálfræðineminn og listsafnarinn Snæfríður Blær Tindsdóttir sem fékk lítið og mjög svo einstakt verk í gjöf frá móður sinni eftir alræmda listamanninn Banksy.

Banksy er breskur listamaður, aktivisti og kvikmyndagerðarmaður sem enginn veit í raun hver er eða hvernig lítur út. Hann er þekktur fyrir nýstárlega nálgun á listina og er hvað þekktastur hér á Íslandi fyrir að hafa gefið Jóni Gnarr verk þegar hann var borgarstjóri.

Byrjaði sem gjörningur

„Þetta er semsagt upplagsverk, verk sem kom í afmörkuðu upplagi, en byrjaði í raun sem gjörningur hjá Banksy sem sérhæfir sig í götulist og gjörningi. 

Hann umbreytti breskum tíu punda seðli og prentaði nokkur hundruð þúsund falsaða slíka, setti Díönu prinsessu inn á í stað drottningarinnar og breytti Bank of England í Banksy Bank sem dæmi,“ segir Snæfríður um verkið og bætir við að Banksy sjálfur og fleira fólk hafi svo mætt á stóra viðburði í Bretlandi og byrjað að dreifa þeim á fullu til fólks.

Banksy umbreytti 10 punda seðli og verkið fer nú á um 600 þúsund krónur.Aðsend

„Þetta var slatti af seðlum og þau fóru meðal annars á Notting Hill Carnival þar sem tug þúsundir koma saman. Fólk áttaði sig auðvitað ekki á því fyrst að þetta væri Banksy verk. Svo voru einhverjir sem pikkuðu upp á því og það er svo skemmtilegt, þetta byrjar sem gjörningur en breytist svo í upplagsverk sem verður ótrúlega verðmætt.

Fólk er að framsetja þetta á ýmsa vegu, þar á meðal að ramma þetta inn eins og við. Sumir fengu þetta verk fyrir algjöra tilviljun og eru nú að ná að selja það á 3000 pund eða um sex hundruð þúsund íslenskar krónur.“

Draumur að opna gallerí

Snæfríður er mikill listunnandi og kemur úr mjög skapandi fjölskyldu. Föðuramma hennar er Ragnheiður Jónsdóttir listakona og kvenskörungur og móðir Snæfríðar hefur einstaklega gott auga fyrir listinni.

„Ég fékk verkið að gjöf frá mömmu. Mamma er listsafnari og mjög dugleg að spotta alls konar sniðugt en hún fann þetta á viðurkenndri sölusíðu.“

Snæfríður er mikill listunnandi og fagurkeri. Aðsend

Hún segir áhuga sinn á Banksy hafa aukist til muna eftir að hún eignaðist verk eftir hann en hún hafi þó þekkt vel til hans fyrir.

„Mér finnst líka svo ótrúlega gaman að safna list og ég hef án efa smitast svolítið af mömmu sem hefur verið dugleg að draga mig á ýmsar sýningar og verið dugleg að gefa mér listaverk í afmælis- og jólagjafir. Minn draumur er að geta sjálf opnað gallerí einhvern tíma,“ segir Snæfríður brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.