Enski boltinn

„Hug­myndin var að verjast með fimm menn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Enzo Maresca, og Ruben Amorim, í leik Chelsea og Manchester United á Old Trafford.
Enzo Maresca, og Ruben Amorim, í leik Chelsea og Manchester United á Old Trafford. EPA/PETER POWELL

Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, útskýrði af hverju hann gerði tvær skiptingar frekar en eina eftir að markvörður hans fékk rautt spjald snemma leiks á Old Trafford.

Chelsea mátti þola 2-1 tap gegn Manchester United á Old Trafford. Bláliðar hafa ekki unnið deildarleik þar síðan árið 2013. Tapið skrifast að mörgu leyti á Robert Sánchez markvörð sem fékk rautt spjald í upphafi leiks.

„Rauða spjaldið breytti leiknum eftir aðeins þrjár mínútur. Eftir rauða spjaldið sem þeir fengu vorum við 10 á 10. Það breytti leiknum fyrir okkur. Við hefðum þurft að byrja betur.“

Casemiro fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði Man United undir lok fyrri hálfleiks. Þá var staðan þegar orðin 2-0 Rauðu djöflunum í vil.

„Þetta er rautt spjald en við hefðum átt að fá vítaspyrnu fyrir brotið á João Pedro,“ sagði Maresca nokkuð súr áður en hann útskýrði skiptingar sínar.

„Þeir sækja á fimm leikmönnum svo hugmyndin var að verjast með fimm menn. Þú getur varist með fjóra þegar það eru 11 á móti 11. Leikurinn breyttist aftur eftir rauða spjaldið hans Casemiro. Við vorum miklu betri.“

Cole Palmer var tekinn af velli í fyrri hálfleik.

„Hann fór í próf í morgun til að athuga hvort hann gæti spilað, hann var ekki 100 prósent klár. Hann lagði mikið á sig fyrir félagið, fyrir liðsfélagana, fyrir liðið. Því miður var hann ekki 100 prósent klár.“

„Við þurfum að byrja leiki betur. Við getum ekki fengið rautt spjald á Old Trafford eftir þrjár mínútur.“

Chelsea er með 8 stig í 6. sæti eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×