Innlent

Vill breyta nafni Við­reisnar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Jón Gnarr er þingmaður Viðreisnar.
Jón Gnarr er þingmaður Viðreisnar. VÍSIR/VILHELM

Þingmaður Viðreisnar hefur lagt fram tillögu um að breyta heiti flokksins á landsþingi. Hann telur nýja nafnið skerpa ímynd og skýra grunngildi flokksins um frelsi og lýðræði.

Meðal tillagna um breytingar á samþykktum Viðreisnar fyrir landsþingið sem er um þessa helgi er tillaga Jóns Gnarr um breytingu á heiti flokksins. Í stað þess að flokkurinn heiti einungis Viðreisn leggur hann til að flokkurinn heiti „Viðreisn - Frjálsir Demókratar.“

„Markmið breytingartillögu þessarar er að gera grunngildi Viðreisnar um frelsi, frjálslyndi og lýðræði sýnileg almenningi með beinum hætti með því að setja orðin „frjálslyndi“ og hið alþjóðlega „Demókratar“ (sem þýðir lýðræðissinnar) við nafn flokksins,“ segir í tillögu Jóns.

Þar segir einnig að hann telji mikilvægt í heimi þar sem sótt sé að frelsi og lýðræðishefð að gera Viðreisn að „enn skýrari áttavita.“

Landsþing Viðreisnar hófst í morgun og stendur yfir um helgina. Á dagskrá þingsins í dag er til að mynda ræða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar.

Fleiri tillögur um breytingar á samþykktum hafa borist. Stjórn Viðreisnar leggur til að búa til nýtt embætti alþjóðafulltrúa innan flokksins sem til að mynda sinnir samskiptum við erlenda systurflokka. Norðausturráð flokksins leggur fram tillögu um að aðgengi að fundum skuli standa öllum félögum Viðreisnar til boða, óháð staðsetningu og búsetu. Þá leggja Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og fleiri til að reglur um kynjakvótann og fléttulistann verði lagðar niður til að tekið sé tillit til fleiri þátta en kyns, líkt og reynslu, hæfni og aldurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×