Innlent

Ingvar aftur kominn í leyfi frá þing­störfum

Eiður Þór Árnason skrifar
Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar. Hann er sjöundi þingmaður Norðausturkjördæmis. 
Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar. Hann er sjöundi þingmaður Norðausturkjördæmis.  Vísir/Vilhelm

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar, er kominn í leyfi frá þingstörfum. Forseti Alþingis greindi frá því við setningu þingfundar í dag að bréf hafi borist frá þingmanninum þar sem tilkynnt var að hann muni ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni.

Ingvar segir í samtali við fréttastofu að hann verði í vikulöngu leyfi vegna utanlandsreisu sem hafi verið skipulögð með löngum fyrirvara. Heiða Ingimarsdóttir tekur sæti á þinginu sem varamaður fyrir Ingvar á meðan hann er fjarverandi.

Fjórir aðrir fjarverandi

Auk Ingvars eru Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokk fólksins, í leyfi frá þingstörfum og tóku Tryggvi Másson og Katrín Sif Árnadóttir sæti í þeirra stað.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Ragna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, eru sömuleiðis fjarri þingstörfum. Áslaug tók sér níu mánaða leyfi í maí til að leggja stund á nám við Columbia-háskóla í New York í Bandaríkjunum. Varamennirnir Sigurður Örn Hilmarsson og Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir hafa tekið sæti fyrir þær á þinginu. 

Aftur kjörinn annar varaforseti

Ingvar fór í leyfi frá þingstörfum í maí til að sækja áfengismeðferð á Vogi en settist aftur á þing þegar það kom saman síðasta þriðjudag. Ingvar gegndi stöðu 2. varaforseta Alþingis og tók samflokksmaður hans Grímur Grímsson við því hlutverki eftir að hann fór í leyfi í vor. Á þingsetningarfundi síðasta þriðjudag var Ingvar svo aftur kjörinn 2. varaforseti án atkvæðagreiðslu.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Ingvari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×