Fótbolti

Skór United týndust og kátur búðar­eig­andi í Björg­vin græddi vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United gerði enga frægðarför til Björgvinjar.
Manchester United gerði enga frægðarför til Björgvinjar. getty/Poppy Townson

Manchester United lenti í vandræðum fyrir leik liðsins gegn Brann í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í gær.

Þegar United-liðið kom til Björgvinjar kom í ljós að takkaskór nokkurra leikmanna höfðu týnst. Forráðamenn United þurftu því að hafa hraðar hendur til að redda skóm fyrir leikinn mikilvæga.

Þremur tímum fyrir leikinn fóru forráðamenn United í Torshov Sport í Björgvin og keyptu fimmtán skópör og tuttugu leggjahlífapör. Eigandi Torshov Sport, Andre Gullord, sagði heppilegt að til hefðu verið nógu margir skór og í réttri stærð.

„Við höfum lent í því að fá einstaka leikmenn til okkar því þeir gleymdu skónum sínum en aldrei heilt lið,“ sagði Gullord. 

„Kannski hefðum við átt að segja að við ættum bara skó með engum tökkum til að hjálpa liðinu okkar!“ bætti eigandinn við í léttum dúr. Hann segir að líklega hafi United keypt vörur fyrir um fjögur þúsund pund, eða um 660 þúsund íslenskar krónur. United rannsakar nú hvernig stóð á því að skórnir týndust.

Brann vann leikinn með einu marki gegn engu. Diljá Ýr Zomers var í byrjunarliði Brann sem mætir United í Manchester í seinni leik liðanna á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×