Handbolti

Viggó lék stóra rullu þegar læri­sveinar Arnórs frusu

Sindri Sverrisson skrifar
Viggó Kristjánsson var öflugur fyrir Erlangen í dag.
Viggó Kristjánsson var öflugur fyrir Erlangen í dag. Vísir/Vilhelm

Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson áttu báðir þátt í því að Erlangen skoraði sex síðustu mörkin og tókst að vinna Bergischer, undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar, í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.

Nýliðar Bergischer, sem þeir Arnór og Markus Pütz stýrðu upp í efstu deild á síðustu leiktíð, virtust í toppmálum á heimavelli í kvöld, 29-27 yfir þegar fimm mínútur voru eftir. En þá skoraði Viggó tvö mörk í röð og jafnaði metin, og Bergischer tókst raunar ekki að skora meira í leiknum.

Andri skoraði lokamarkið í 33-29 sigri Erlangen og gerði alls þrjú mörk í leiknum. Viggó var í enn stærra hlutverki með sex mörk og flestar stoðsendingar eða fjórar talsins.

Haukur Þrastarson fagnaði einnig sigri, með sínu nýja liði Rhein-Neckar Löwen, eða 28-24 gegn Minden. Eftir að hafa verið markahæstur í fyrsta leik var Haukur hins vegar ekki á meðal markaskorara í kvöld og fóru öll þrjú skot hans forgörðum.

Ýmir Örn Gíslason varð hins vegar að sætta sig við sex marka tap með Göppingen gegn meisturum Füchse Berlín á heimavelli, 32-26. Ýmir skoraði eitt mark í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×