Enski boltinn

Höfnuðu fimm­tíu milljóna punda til­boði í Strand Larsen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jörgen Strand Larsen vakti athygli fyrir góða spilamennsku á síðasta tímabili.
Jörgen Strand Larsen vakti athygli fyrir góða spilamennsku á síðasta tímabili. getty/Catherine Ivill

Newcastle United er í framherjaleit og rennir hýru auga til Norðmannsins Jörgen Strand Larsen hjá Wolves.

Callum Wilson yfirgaf Newcastle í sumar og þá ríkir mikil óvissa með framtíð Alexanders Isak. Hann vill fara til Liverpool en Newcastle vill ekki selja hann. Isak hefur ekki verið í leikmannahópi Newcastle í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Newcastle hafi boðið fimmtíu milljónir punda í Strand Larsen en Wolves hafi hafnað því tilboði.

Newcastle hefur einnig boðið í Yoane Wissa, framherja Newcastle, en ekki haft erindi sem erfiði.

Strand Larsen skoraði fjórtán mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann lék þá sem lánsmaður með Wolves frá Celta Vigo. Úlfarnir keyptu norska framherjann svo í sumar fyrir 23 milljónir punda.

Anthony Gordon byrjaði sem fremsti maður hjá Newcastle í markalausa jafnteflinu við Aston Villa um þarsíðustu helgi og í 2-3 tapinu fyrir Liverpool í gær. Gordon var rekinn af velli í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að hann braut á Virgil van Dijk, fyrirliða Liverpool.

Newcastle er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn nýliðum Leeds United á laugardaginn.

Wolves er án stiga og hefur ekki enn skorað mark á tímabilinu. Liðið mætir Everton á heimavelli í næsta leik sínum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×