Fótbolti

Al­sæla eftir hetjumark Ísaks í fyrsta leik

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson, liðsfélagar og stuðningsmenn fögnuðu ákaft eftir sigurmarkið hans.
Ísak Bergmann Jóhannesson, liðsfélagar og stuðningsmenn fögnuðu ákaft eftir sigurmarkið hans. Skjáskot/@fckoeln

Ísak Bergmann Jóhannesson og hans nýju liðsfélagar í FC Köln voru afar nálægt því að falla úr leik í fyrstu umferð þýsku bikarkeppninnar í fótbolta, gegn 3. deildarliði Regensburg, en skoruðu tvö mörk í uppbótartíma og unnu sigur. Ísak skoraði sigurmarkið.

Það trylltist allt þegar Ísak náði, á áttundu mínútu uppbótartíma, að skora sigurmark Kölnar eins og sjá má í myndbandi á Instagram-síðu félagsins.

Heimamenn í Regensburg höfðu komist í 1-0 á 66. mínútu og þannig var staðan þar til á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar Eric Martel jafnaði metin fyrir gestina.

Þá var enn tími fyrir Ísak til að skora sigurmarkið eins og fyrr segir.

Ísak er því strax byrjaður að láta til sín taka fyrir sitt nýja félag eftir afar umdeild vistaskipti sín í sumar þegar hann fór frá Fortuna Düsseldorf til erkifjendanna.

Með því að fara til Kölnar er Ísak mættur í efstu deild Þýskalands og þar leikur liðið gegn Mainz í fyrstu umferð næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×