Fótbolti

„Eigin­lega al­veg viss“ um að Rashford megi spila á morgun

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joan Laporta er vongóður um að sjá Marcus Rashford í fyrsta deildarleik tímabilsins.
Joan Laporta er vongóður um að sjá Marcus Rashford í fyrsta deildarleik tímabilsins. getty

Eftir langa viku er Joan Laporta, forseti Barcelona, lentur á Mallorca fyrir fyrsta leik liðsins í spænsku úrvalsdeildinni. Hann hefur staðið í ströngu við að ganga frá skráningu leikmanna en er „eiginlega alveg viss“ um að nú sé allt að smella og Marcus Rashford verði með á morgun.

Laporta mætti á stuðningsmannakvöld Börsunga í Mallorca og hélt ræðu.

„Ég verð að segja ykkur, ég er eiginlega alveg viss, næstum því fullviss um að á morgun megi Joan García og Marcus Rashford spila. Ef Hansi Flick vill velja þá í liðið…

Þetta hefur ekki verið auðvelt, þetta er ekki auðvelt. En verkefnið snýst um að elska Barcelona og halda áfram að berjast alveg til enda“ sagði forsetinn.

Barcelona hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum síðustu ár og fyrir hvert einasta tímabilið lenda Börsungar í vandræðum með að skrá nýja leikmenn.

Það veit líka yfirleitt ekki á gott þegar forseti félagsins er óviss um stöðuna í leikmannamálum en Laporta segir Barcelona vera að finna fyrri styrk aftur.

Ræða hans á stuðningsmannakvöldinu breyttist í eldræðu þegar talið barst að fjárhagsörðugleikum félagsins. Hann sagði fólk ekki fatta að félagið hefði framtíðarsýn sem væri að virka. Öll vinnan bakvið tjöldin myndi skila sér á endanum.

Spænski miðillinn Marca greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×