Golf

Vann mótið með loka­högginu sem var magnað vipp úr sandinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christo Lamprecht fagnar sigurhöggi sínu gríðarlega og ekki er kylfusveinninn hans minna kátur.
Christo Lamprecht fagnar sigurhöggi sínu gríðarlega og ekki er kylfusveinninn hans minna kátur. Getty/Jay Biggerstaff

Suður-afríski kylfingurinn Christo Lamprecht tryggði sér sigur á Pinnacle Bank meistaramótinu með mögnuðu lokahöggi.

Lamprecht vann mótið með einu höggi, lék hringina fjóra á nítján höggum undir pari. Mótið fór fram í Omaha í Nebraska og var á Korn Ferry mótaröðinni.

Hinn 24 ára gamli kylfingur var samt í talsverðum vandræðum á átjándu holunni þar sem högg hans endaði ofan í sandgloppu við flötuna. Hann hefði tryggt sér umspil með því að vippa inn á flot og setja púttið niður. Tvö pútt og hann hafði orðið í öðru sætinu.

Lamprecht hafði spilað mjög jafnt og gott golf því hann lék hringina fjóra á 67, 67, 65 og 66 höggum. Það var einmitt þetta 66. högg hans á lokaholunni á lokahringum og það 265. á öllu mótinu sem sló öllum öðrum við.

Lamprecht náði nefnilega fullkomnu höggi úr sandinum. Kúlan fór bæði rétta leið og á réttum hraða og endaði beint ofan í holu. Lamprecht hafði þar með tryggt sér sigurinn á mótinu.

Þeir gerast líklega ekki sætari sigrarnir en þessi sem sást líka á fagnaðarlátunum hjá Lamprecht.

Lamprecht henti frá sér kylfunni og fagnað gríðarlega með kylfusveini sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þetta var líka fyrsta golfmótið sem hann vinnur sem atvinnumaður og það er ekki slæmt að gera það með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×