Handbolti

Stelpurnar unnu Noreg á EM og tryggðu sér sau­tjánda sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar enduðu Evrópumótið vel.
Íslensku stelpurnar enduðu Evrópumótið vel. @hsi_iceland

Íslenska sautján ára landslið kvenna í handbolta endaði í sautjánda sæti á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi.

Íslensku stelpurnar unnu tveggja marka sigur á Noregi, 29-27, í leiknum um sautjánda sætið.

Íslenska liðið lagði grunn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik sem íslenska liðið vann 18-10.

Laufey Helga Óskarsdóttir var óstöðvandi í fyrri hálfleiknum með sjö mörk. Hún varð markahæst í íslenska liðinu með tíu mörk og skoraði alls 58 mörk á mótinu.

Þær norsku komu til baka í seinni hálfleik og gerðu þennan leik spennandi undir lokin. Íslenska liðið hélt út og fagnaði tveggja marka sigri.

Íslensku stelpurnar náðu með þessu að hefna fyrir þriggja marka tap á móti Norðmönnum í milliriðlinum fyrir aðeins fimm dögum síðan.

Laufey Helga var eins og áður langatkvæðamest með tíu mörk þar af komu þrjú úr vítum. Roksana Jaros skoraði fimm mörk fyrir íslenska liðið og þær Vígdís Arna Hjartardóttir og Ebba Guðríður Ægisdóttir voru með fjögur mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×