Handbolti

Leika um 17. sætið á EM eftir sigur á Austur­ríki

Árni Jóhannsson skrifar
Stelpurnar okkar gerðu vel gegn Austurríki í dag.
Stelpurnar okkar gerðu vel gegn Austurríki í dag. @hsi_iceland

Undir 17 ára landslið kvenna í handbolta lagði Austurríki með fjórum mörkum í dag 31-27. Leikið var á EM sem fram fer í Svartfjallalandi og tryggði sigurinn Stelpunum okkar leik um 17. sætið í mótinu.

Íslensku stelpurnar lentu undir í byrjun og voru fjórum mörkum undir þegar um fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Þær bitu heldur betur í skjaldarrendurnar, nöguðu niður forskotið og komust yfir, 10-9, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þær juku við forskotið sitt og leiddu með þremur mörkum í hálfleik 17-14.

Frábær byrjun í seinni hálfleik kom íslenska liðinu í sjö marka forystu og náðu þær austurrísku ekki að komast nálægt þeim íslensku. Munurinn var orðinn níu mörk um miðjan hálfleikinn og Ísland sýndi engin grið. Austurríki náði þó að klóra aðeins í bakkann og minnka muninn niður í fjögur mörk 31-27 og þar við sat.

Markahæst var Ebba Guðríður Ægisdóttir, leikmaður Hauka, með níu mörk í tíu skotum. Danijela Sara Björnsdóttir varði síðan 16 skot og varði 40% skota sem komu á hana.

Ísland mun því leika um 17. sætið í mótinu gegn Noregi. Leikurinn mun fara fram á sunnudaginn 10. ágúst nk. kl. 10 að íslenskum tíma.

Úrslit og markaskorarar fengnir af Handbolti.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×