Fótbolti

Máluðu dvergana sjö í kringum fræga vegg­mynd af Lamine Yamal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessum stuðningsmanni Barcelona var mikið niðri fyrir eftir að hann sá viðbótina við veggmyndina af Lamine Yamal.
Þessum stuðningsmanni Barcelona var mikið niðri fyrir eftir að hann sá viðbótina við veggmyndina af Lamine Yamal. @joao_dainfo

Lamine Yamal hefur síðustu vikur mátt upplifa slæmu hliðarnar af frægðinni í framhaldi af því að hafa fengið mikla gagnrýni eftir átján ára afmælisveislu sína.

Spænskir fjölmiðlar voru uppfyllir af svokölluðu hneyksli í kringum það að Yamal réði dverga til að skemmta í afmælisveislunni. Hann hélt veisluna upp í sveit og enginn mátti mæta með síma eða myndavélar. Þetta átti að vera veisla sem umheimurinn átti ekki að vita neitt um.

Það fór þó ekki svo því fréttir af litlu skemmtikröftunum urðu að miklu fjaðrafoki á Spáni.

Dvergarnir sjálfir skildu þó lítið í hneyksli fólks og sögðust bara hafa verið að mæta í vinnuna. Þeir hafi hvorki verið niðurlægðir eða orðið fyrir áreiti af afmælisgestunum.

Einhverjir í Barcelona vildu þó ekki að þetta mál gleymdist.

Þeir mættu því að frægri veggmynd af Lamine Yamal á vegg við Joanic torgið, Plaça d'en Joanic, og breyttu henni.

Upprunalega myndin var gerð af TV Boy og sýndi hún undrabarn Barcelona í Súperman búningi. Myndin var frumsýnd fyrir átján ára afmælið hans á dögunum sem var 13. júlí síðastliðinn.

Skemmdarvargarnir máluðu dvergana sjö úr Disney myndinni frægu um Mjallhvít í kringum Yamal.

Yamal er nú umkringdur dvergunum sjö sem eru Purkur, Kútur, Hnerrir, Álfur, Naggur, Teitur og Glámur.

Yamal sjálfur er staddur í æfingaferðalagi með Barcelona í Suður Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×