Fótbolti

Mark Kol­beins svo gott sem gull­tryggði sigurinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kolbeinn hefur spilað vel á leiktíðinni.
Kolbeinn hefur spilað vel á leiktíðinni. IFK Gautaborg

Miðjumaðurinn Kolbeinn Þórðarson skoraði annað mark Gautaborgar í virkilega sannfærandi 3-0 sigri á Degerfors í efstu deild sænska fótboltans.

Gengi Gautaborgar hefur verið upp og niður undanfarið þar sem liðið hefur unnið og tapað til skiptis. Eftir tap í síðasta leik var því komið að sigri í dag.

Markið skoraði Kolbeinn í blálok fyrri hálfleiks og staðan því 2-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Segja má að markið hafi endanlega slegið vindinn úr gestunum.

Segja má að Kolbeinn hafi haft heppnina með sér. Skot hans af löngu færi fór í varnarmann og kom markvörður gestanna því engum vörnum við. Var þetta fimmta deildarmark hans á tímabilinu.

Eftir sigurinn er Gautaborg í 7. sæti með 28 stig að loknum 18 umferðum. Aðeins 7 stig eru upp í Elfsborg í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×