Fótbolti

Sjáðu þegar stelpurnar hittu Höllu for­seta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halla Tómasdóttir með Sveindísi Jane Jónsdóttir sem fékk verðlaun fyrir fimmtíu landsleiki. Með þeim er Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ.
Halla Tómasdóttir með Sveindísi Jane Jónsdóttir sem fékk verðlaun fyrir fimmtíu landsleiki. Með þeim er Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ. ksí

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, kom í heimsókn til íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta á liðshótelið í Gunten í dag.

Stelpurnar voru að sleikja sárin eftir tap í fyrsta leiknum á Evrópumótinu kvöldið áður.

Halla hitti stelpurnar þegar þær voru að borða morgunmat. Húm snæddi síðan morgunverð á liðshótelinu.

Á samfélagsmiðlum Knattspyrnusambands Íslands má sjá svipmyndir af því þegar stelpurnar okkar hittu forsetann.

„Takk fyrir síðast,“ sagði Halla við komuna en hún kvaddi einmitt íslenska hópinn á Bessastöðum áður en þær lögðu í hann til Sviss.

Willum Þór Þórsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, var líka á svæðinu ásamt Guðmundi Inga Kristinssyni ráðherra íþróttamála og Einari Gunnarssyni sendiherra Íslands í Sviss.

Halla faðmaði stelpurnar hverjar á fætur annarri en þær þurftu stuðning eftir vonbrigði gærkvöldsins.

„Er barist um það að vera fyrstar á svæðið og geta borðað úti,“ spurði Halla í léttum tón en útsýnið af svölum hótelsins er engu líkt.

Halla afhenti líka leikmönnunum Guðrúnu Arnardóttur, Hlín Eiríksdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur viðurkenningar fyrir fimmtíu landsleiki.

Hér fyrir neðan má sjá meira frá heimsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×