Innlent

Þing­heimur minnist Magnúsar Þórs

Agnar Már Másson skrifar
Magnús Þór (t.h.) settist á þing árið 2003 sem þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
Magnús Þór (t.h.) settist á þing árið 2003 sem þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

Alþingismenn hófu þingfund í morgun á því að minnast Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, fyrrverandi þingmanns sem fórst í sjóslysi á mánudag.

Greint var frá því í gær að Magnús, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, hafi látist í sjóslysi við strandveiðar á mánudag. Hann var 61 árs og gerði út á bátnum Orminum langa AK-64 frá Patreksfirði.

Magnús Þór fæddist á Akranesi í maí 1964 og er hann sonur hjónanna Hafsteins Magnússonar og Jóhönnu Kristínar Guðmundsdóttur. Magnús Þór menntaði sig sem búfræðingur með fiskeldi sem sérgrein á Bændaskólanum á Hólum og útskrifaðist þar árið 1986.

Magnús Þór settist á þing árið 2003 sem þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi. Hann var formaður þingflokksins árin 2004 til 2007. Þá sat hann í sjávarútvegsnefnd 2003 til 2007 og félagsmálanefnd 2005 til 2007 auk þess að sitja í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2003 til 2005. Hann sagði sig úr Frjálslynda flokknum árið 2009. Hann bauð fram krafta sína á Alþingi fyrir Flokk fólksins árið 2017 en náði ekki sæti á Alþingi. Hann gegndi í framhaldinu starfi framkvæmdastjóra þingflokksins.

„Ég bið þingheim um að minnast Magnúsar Þórs Hafsteinssonar fyrrverandi Alþingismanns með því að rísa úr sætum,“ sagði Þórunn við upphaf þingfundar klukkan 10 í dag og þingmenn hlýddu.

Síðan var fundinum frestað í fimm mínútur en umræða um veiðigjaldafrumvarpið heldur áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×