Fótbolti

Alonso boðar nýja tíma hjá Real Madrid

Stefán Árni Pálsson skrifar
Alonso á blaðamannafundi Real Madrid í dag.
Alonso á blaðamannafundi Real Madrid í dag. Vísir/getty/Angel Martinez

„Þetta er byrjunin á næsta kafla í sögu félagsins,“ sagði Xabi Alonso á blaðamannafundi félagsins sem haldinn á æfingasvæði Real Madrid, Valdebebas, í dag.

Félagið tilkynnti formlega að Xabi Alonso yrði næsti knattspyrnustjóri liðsins í gær.

Xabi Alonso hætti hjá Bayer Leverkusen á dögunum. Undir hans stjórn varð liðið tvöfaldur meistari í Þýskalandi í fyrra, án þess að tapa leik. Hann skrifar undir þriggja ára samning við spænska stórveldið en hann þekkir vel til hjá félaginu og lék með því á árunum 2009-14, alls 236 leiki.

„Aðdáendur félagsins eru greinilega spenntir að fá að byrja þennan nýja kafla og við munum skrifa sögu félagsins á næstunni. Þetta er merkilegur dagur fyrir mig, dagur sem ég verð með í dagbókinni alla ævi. Ég er einstaklega ánægður að fá að vera hérna á stað sem skilgreini sem mitt heimili.“

Real Madrid endaði í 2. sæti í deild og bikar í vetur og komst í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

„Liðið er skipað stórkostlegum leikmönnum og með lið sem hefur mikla möguleika. Það var ástæðan fyrir því að ég vildi takast á við þetta verkefni og ég mun smíða stórgott lið úr þessum hóp. En ég vil að leikmenn liðsins sýni tilfinningar, mikla orku og tengist áhorfendum á vellinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×