Fótbolti

Modric kveður Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Modric varð sex sinnum Evrópumeistari með Real Madrid.
Luka Modric varð sex sinnum Evrópumeistari með Real Madrid. getty/Justin Setterfield

Eftir að hafa leikið með Real Madrid síðan 2012 yfirgefur Luka Modric félagið eftir heimsmeistarakeppni félagsliða í sumar.

Modric greindi frá þessu í bréfi til stuðningsmanna Real Madrid.

„Tíminn er kominn. Augnablikið sem ég vildi að kæmi aldrei en þetta er fótbolti og í lífinu hefur allt upphaf og endi. Á laugardaginn spila ég síðasta leikinn minn á Santiago Bernabéu,“ skrifaði Modric.

Real Madrid keypti Modric frá Tottenham sumarið 2012. Á þrettán árum hjá Madrídarfélaginu varð Króatinn fjórum sinnum spænskur meistari, tvisvar sinnum bikarmeistari, vann Meistaradeild Evrópu sex sinnum, HM félagsliða fimm sinnum og Ofurbikar Evrópu fimm sinnum.

Modric, sem verður fertugur í september, hefur leikið 590 leiki fyrir Real Madrid og skorað 43 mörk.

Real Madrid tekur á móti Real Sociedad í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. Madrídingar enda í 2. sæti sama hvernig leikurinn fer.

Í júní tekur Real Madrid svo þátt í HM félagsliða. Liðið er í riðli með Al Hilal frá Sádí-Arabíu, Pachuca frá Mexíkó og Red Bull Salzburg frá Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×