Fótbolti

Áhyggju­laus yfir þátt­töku lands­liðs­kvenna á spennandi móti: „Þar til ein­hver meiðist“

Aron Guðmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hefur ekki stórar áhyggjur af þátttöku landsliðskvenna á móti í sjö manna bolta í Portúgal
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hefur ekki stórar áhyggjur af þátttöku landsliðskvenna á móti í sjö manna bolta í Portúgal Vísir/Samsett mynd

Þor­steinn Halldórs­son, lands­liðsþjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta, hefur ekki áhyggjur af þátt­töku nokkurra lands­liðs­kvenna á spennandi móti í sjö manna bolta sem hefst í Portúgal á morgun og það skömmu fyrir lands­liðs­verk­efni, þangað til ein­hver meiðist.

Átta af betri kvenna­liðum Evrópu taka þátt á þessu fyrsta móti World Se­vens sem er haldið í Estor­il í Portúgal. Lið á borð við Manchester City og Manchester United frá Eng­landi, PSG frá Frakk­landi, Ajax frá Hollandi, Roma frá Ítalíu, Ben­fi­ca frá Portúgal, Svíþjóðar­meistarar Rosengård og Þýska­land­smeistarar Bayern Munchen.

Guðrún Arnar­dóttir og Ísa­bella Sara Tryggva­dóttir eru í leik­manna­hópi Rosengård á mótinu og í leik­manna­hópi Bayern Munchen er að finna ís­lenska lands­liðs­fyrir­liðann Glódísi Perlu Viggós­dóttur sem varð nýverið tvöfaldur meistari í Þýska­landi.

Til mikils er að vinna á mótinu sem að dúkkar upp eftir tíma­bilið í stærstu deildum Evrópu en á miðju tíma­bili hjá Rosengård í Svíþjóð. Heildar­verð­launafé á mótinu er 5 milljónir Bandaríkja­dala, jafn­virði um 644 milljóna íslenskra króna. Hvert félag fær að lág­marki 17 milljónir króna og mest er hægt að fá um 335 milljónir króna með því að vinna mótið.

Óvana­legt er að mót í sjö manna bolta dúkki upp á þessum tíma­punkti fót­boltatíma­bilsins. Keppni lokið í helstu deildum og fram­undan EM sumar og í næstu viku hefjast lands­liðs­verk­efni í Þjóða­deildinni. Guðrún og Glódís Perla eru í lands­liðs­hópi A-lands­liðsins sem mætir Noregi og Frakk­landi en Ísa­bella Sara í undir 23-ára liðinu sem leikur tvo æfinga­leiki við Skot­land ytra.

Þor­steinn lands­liðsþjálfari setur sig ekki upp á móti um­ræddu móti í sjö manna bolta heldur sér hann ávinning í því að leik­menn lands­liðsins haldi sér við með því að taka þátt á mótinu. Ekki þurfi að hafa áhyggjur, þangað til ein­hver meiðist.

Ísabella í leik með RosengardMynd: Rosengard

„Ég held að þetta skipti engu máli,“ sagði Þor­steinn í viðtali eftir blaða­manna­fund í höfuðstöðvum KSÍ í síðustu viku. „Þetta er sjö manna bolti og liðin fara með í kringum tuttugu manna hóp á þetta mót og spila ein­hverja örfáa fót­bolta­leiki. Ég sé ekkert vanda­mál við að taka þátt í því. 

Þær eru í fríi og eru þá bara að spila leiki og fót­bolta. Þetta er ekkert vanda­mál og skiptir engu höfuðmáli í þessu. Þær þurfa að halda sér við, þurfa að vera í standi þegar að þær mæta svo tveimur dögum seinna í lands­liðs­verk­efni. Þetta er til gamans gert og svo er náttúru­lega ein­hver fjár­hags­legur ávinningur í þessu líka. Þetta er ekki eitt­hvað til að hafa áhyggjur af held ég, þangað til ein­hver meiðist.“

World Sevens mótið hefst í Estoril á morgun og lýkur á föstudaginn kemur. Ísland mætir Noregi viku síðar ytra og Frakklandi hér heima á Laugardalsvelli þann 3.júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×