Fótbolti

Harry Kane getur unnið langþráðan titil í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane kom til Bayern München sem vann titil á hverju ári en enski framherjinn hefur þurft að bíða í átján mánuði eftir fyrsta titli sínum með Bæjurum.
Harry Kane kom til Bayern München sem vann titil á hverju ári en enski framherjinn hefur þurft að bíða í átján mánuði eftir fyrsta titli sínum með Bæjurum. Getty/Emmanuele Ciancaglini

Enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane hefur mátt heyra ófáar háðsglósurnar og athugasemdirnar um að hann hafi aldrei unnið titil á ferlinum. Biðin langa gæti loksins endað í dag.

Kane og félagar í Bayern München geta nefnilega tryggt sér þýska meistaratitilinn í dag. Þeir þurfa að vinna Mainz og Bayer Leverkusen má ekki vinna Augsburg á sama tíma.

Kane vann engan titil á tíu tímabilum með Tottenham og Bæjurum tókst heldur ekki að vinna titil á hans fyrsta tímabili með liðinu.

Kane hefur fjórum sinnum orðið markakóngur í sínum deildum og er líka markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar í vetur. Mörkin hans hafa hingað til ekki verið nóg til að tryggja félögum hans titla.

Bayern var búið að vinna þýsku deildina ellefu ár í röð þegar hann kom í fyrra en missti titilinn til Bayer Leverkusen.

Liðið féll líka óvænt úr þýska bikarnum á móti smáliði Saarbrücken í fyrra og tapaði fyrir Leverkusen í sextán liða úslitum bikarsins í ár.

Bayern datt líka á dögunum út úr Meistaradeildinni á móti ítalska félaginu Internazionale.

Kane hefur skorað 60 mörk í 60 leikjum í þýsku deildinni á þessum tveimur tímabilum þar af 24 mörk á þessu tímabili.

Bayern er með átta stiga forskot á Leverkusen þegar fjórir leikir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×