Enski boltinn

Liver­pool gæti orðið meistari strax á mið­viku­dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Styttist í að þeir verði Englandsmeistarar.
Styttist í að þeir verði Englandsmeistarar. Liverpool FC/Getty Images

Það er aðeins tímaspursmál hvenær Liverpool verður Englandsmeistari karla í knattspyrnu í 20. skiptið. Það gæti gerst strax á miðvikudaginn.

Arsenal frestaði veisluhöldum Liverpool-manna um nokkra daga með sigri sínum á Ipswich Town á sunnudag. Skytturnar hans Mikel Arteta þurfa sigur gegn Crystal Palace í miðri viku annars er Liverpool formlega orðið meistari. Og það án þess að spila.

Sé Liverpool ekki orðið meistari eftir leik Arsenal á miðvikudag þá þurfa lærisveinar Arne Slot sigur gegn Tottenham Hotspur á Anfield næsta sunnudag til að tryggja sér titilinn. Slot er spenntur fyrir leiknum.

„Okkur hlakkar alltaf til að spila á Anfield og hlakkar mikið til leiksins. Við höfum spilað við Tottenham Hotspur nokkrum sinnum á leiktíðinni og vitum að þeir geta gert okkur lífið leitt. Þeir eru gott lið, meiddu leikmennirnir þeirra verða komnir til baka og þeir eru enn að spila fyrir eitthvað í Evrópu.“

„Ég hlakka til og ég reikna með að stuðningsfólk okkar verði hávært á sunnudag.“

Með komandi Englandsmeistaratitli verða Liverpool og Manchester United jöfn með 20 slíka frá upphafi enskrar knattspyrnu. Þetta yrði annar titill liðsins á þessari öld á meðan Man United hefur unnið þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×