Fótbolti

Konurnar þurfa að mæta Ís­landi á leik­vangi sem er ekki nógu góður fyrir karlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingrid Engen gagnrýnir það að leikur Íslands og Noregs sé spilaður á leikvangi sem er ekki löglegur fyrir karlalandsliðin.
Ingrid Engen gagnrýnir það að leikur Íslands og Noregs sé spilaður á leikvangi sem er ekki löglegur fyrir karlalandsliðin. Getty/Maja Hitij

Norska ríkisútvarpið fjallar á vef sínum sérstaklega um leikvanginn sem hýsir landsleik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í dag.

Leikur Íslands og Noregs verður spilaður á Þróttaravelli þar sem það er verið að skipta um undirlag á Laugardalsvellinum.

Leikurinn verður því spilaður á gervigrasi en nýja grasið á Laugardalsvelli verður blendigras, náttúrulegt gras styrkt með gervigrasi sem er „saumað“ í völlinn.

„Ég er ekki vön því að spila á gervigrasi en ég hef spilað á gervigrasi í norsku úrvalsdeildinni. Það er mikið af gervigrasvöllum þar. Ég þekki þetta því þaðan,“ sagði norska landsliðskonan Ingrid Syrstad Engen við NRK.

Norska ríkisútvarpið segir frá því að íslenska karlalandsliðið hafi þurft að spila sinn heimaleik á Spáni vegna þess að Þróttaravöllur telst ekki boðlegur fyrir karlalandsliðið.

„Það er enginn vafi á því að kröfurnar eigi að vera þær sömu. Þannig finnst mér að þetta eigi að vera,“ sagði Engen.

NRK segir að ástæðan sé þó ekki gervigrasið sjálft heldur áhorfendaaðstaðan, flóðljósin og fjölmiðlaaðstaðan.

NRK segir að uppselt sé á leikinn þar sem að leikvangurinn taki aðeins þúsund manns.

„Sú staðreynd að við spilum bara fyrir framan þúsund manns. Ég vildi óska að það væru fleiri og íslensku stelpurnar eru örugglega sammála mér. Ég hef alltaf talað fyrir því að hækka standardinn á kvennafótboltanum,“ sagði norski landsliðsþjálfarinn Gemma Grainger við NRK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×