Þær tveir deildir í Evrópu sem fá flest stig á styrkleikalista UEFA fá bæði að senda fimm lið í Meistaradeildina 2025-26.
Enska úrvalsdeildin hefur verið með fjögur lið undanfarin ár en fimmta sætið í deildinni er allt í einu orðið mjög eftirsótt eftir að Englendingar komust í toppsæti styrkleikalistans.
Það eru aftur á móti möguleikar á því að fleiri ensk lið komist í Meistaradeildina á næstu leiktíð og þau gætu í raun orðið alls sjö talsins.
Eitt í boði í Evrópudeildinni
Tottenham og Manchester United eru bæði í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar en geta samt bæði tryggt sér sæti í Meistaradeildinni með því að vinna Evrópudeildina. Það yrði þá sjötta enska liðið.
Tottenham og United komust í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í gærkvöldi og gætu mæst í úrslitaleiknum í Bilbao. Tottenham þarf þá að fara í gegnum Eintracht Frankfurt og Bodö/Glimt/Lazio en Manchester United í gegnum Lyon og Rangers/Athletic Bilbao.
Hitt aðeins langsóttara
Mögulegt sjöunda sæti er kannski öllu langsóttara. Aston Villa þyrfti þá að vinna Meistaradeildina á sama tíma og liðið endar neðar en í fjórða sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Liverpool og Arsenal eru í efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar í dag, Liverpool er öruggt með sitt sæti en Arsenal er líka í góðum málum auk þess að geta enn unnið Meistaradeildina.
Mikil spenna í baráttunni um eftirsótt sæti
Það er aftur á móti mikil spenna í baráttunni um hin þrjú sætin. Nottingham Forest er í þriðja sæti með 51 stig og svo eru bara fjögur stig niður í sjötta sætið þar sem Newcastle situr. Chelsea er með 49 stig og Manchester City er með 47 stig eins og Newcastle.
Það er heldur ekki langt niður í liðin i sjöunda sæti (Brighton 46 stig) og áttunda sæti (Aston Villa 45 stig).
Lokaspretturinn í baráttunni um Meistaradeildarsætin verður því örugglega æsispennandi ekki síst þar sem að það eru fleiri sæti í boði.