Glódía Perla Viggósdóttir og liðsfélagar hennar í Bayern München unnu leikinn 3-1. Fyrir vikið er Bayern komið með sex stiga forskot á toppnum en Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Wolfsburg eru í öðru til þriðja sæti með Eintracht Frankfurt.
Danska landsliðskonan Pernille Harder var öðrum fremur maður leiksins en hún skoraði tvívegis. Lea Schüller skoraði þriðja mark Bæjara og kom liðinu þá í 3-0.
Fyrra mark Harder kom á þrettándu mínútu en hitt markið á annarri mínútu síðari hálfleiks. Mark Schüller kom á 69. mínútu.
Glódís Perla hefur verið tæp og missti af leik á dögunum. Hún byrjaði leikinn í kvöld en var tekin af velli á 53. mínútu þegar Bayern var komið tveimur mörkum yfir.
Glódís Perla fékk höfuðhögg og skurð í upphafi leiks þegar hún og markvörður liðsins skullu saman. Glódís spilaði eftir það með svaka umbúðir á höfðinu en það blæddi heilmikið úr sárinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á varamannabekknum í dag en kom inn á á 68. mínútu.
Eftir að hún kom inn á völlinn þá minnkaði Lineth Beerensteyn muninn í 3-1 á 75. mínútu. Sveindís sjálf fékk gult spjald þegar hún var nýkomin inn á völlinn á 71. mínútu.