Fótbolti

Áhyggju­fullir ná­grannar hringdu í lög­regluna

Aron Guðmundsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að athuga með stöðuna á stuðningsmanni Liverpool í gær
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að athuga með stöðuna á stuðningsmanni Liverpool í gær Vísir/Vilhelm

Nágrannar stuðnings­manns enska liðsins Liver­pool hér í Reykja­vík höfðu áhyggjur af honum og hringdu í lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu eftir að óhljóð höfðu borist á milli íbúða.

Frá þessu segir í til­kynningu frá Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu á sam­félags­miðlinum Face­book. En Liver­pool átti mikilvægan leik gegn Paris Saint-Germain í Meistara­deild Evrópu í gærkvöldi og tapaði Liver­pool í víta­spyrnu­keppni  eftir framlengdan leik og er því úr leik í Meistara­deildinni í ár.

„Reglu­lega berast lög­reglu kvartanir vegna hávaða og gærkvöldið var engin undan­tekning í þeim efnum,“ segir í til­kynningu Lög­reglunnar. „Að þessu sinni var það vegna Liver­pool-aðdáenda sem fóru á límingunum þegar liðið þeirra tapaði í víta­spyrnu­keppni eftir fram­lengdan leik í Meistara­deildinni. Að tapa með þeim hætti er sárt og því fylgja stundum öskur og læti enda von­brigðin gríðar­leg hjá eld­heitum stuðnings­mönnum. Engum varð þó meint af í þeim tveimur málum, sem sinnt var vegna þessa í gærkvöld, en þá höfðu áhyggju­fullir nágrannar hringt í lög­regluna eftir að óhljóð höfðu borist á milli íbúða. Til að gæta allrar sann­girni skal tekið fram að út­köll sem þessi eru ekki ein­vörðungu bundin við stuðnings­menn Liver­pool, nei síður en svo.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×