Innlent

Anna Kristín Arn­gríms­dóttir er látin

Jón Þór Stefánsson skrifar
Anna Kristín skilur eftir sig eiginmann og þrjú börn.
Anna Kristín skilur eftir sig eiginmann og þrjú börn.

Leikkonan Anna Kristín Arngrímsdóttir er látin 76 ára að aldri. Anna Kristín fæddist þann 16. júlí 1948 á Böggvistöðum í Svarfaðardal og var hún dóttir Kristjönu Margrétar Sigurpálsdóttur og Arngríms Stefánssonar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hennar.

Anna Kristín ólst upp á Dalvík en flutti suður til Reykjavíkur og fór í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur eftir landspróf 1965, nýorðin sautján ára, og lauk þaðan prófi 1968. Hún hóf í raun leiklistarferilinn áður en hún útskrifaðist þegar hún lék í fyrsta íslenska sjónvarpsleikritinu, Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson.

Eftir námið lék hún hjá Leikfélagi Reykjavíkur til ársins 1973 þegar hún réðst til Þjóðleikhússins. Þar starfaði hún allt til ársins 2011.

Anna Kristín tók þátt í fjölda leiksýninga á ferlinum. Þar má m.a. nefna: Ímyndunarveikina, Með vífið í lúkunum, Amadeus, Vesalingana, Náttbólið, Lé konung, Stór og smár, Silfurtunglið, Oresteia Æskýlosar, Mávinn og Kæru Jelenu svo aðeins nokkur séu nefnd.

Af leikverkum utan Þjóðleikhússins má nefna Master Class - María Callas á sviði Íslensku óperunnar, Ferjan í Borgarleikhúsinu, Róðarí og Ég lifi enn í Tjarnarbíói. Hún var einnig virkur meðlimur 50+ leikhópsins.

Á leikferlinum lék hún í meira en hundrað útvarpsverkum auk kvikmynda- og sjónvarpsverkefna.

Anna Kristín var tilnefnd til menningarverðlauna DV og hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín í leiklist.

Sambýlismaður Önnu Kristínar er Úlfar Þormóðsson. Börn hennar eru Garðar Svavar Gíslason, Brynja Valdís Gísladóttir og Matthildur Anna Gísladóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×