Fótbolti

Réð son sinn sem for­seta fé­lagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Valencia hafa reglulega skipulagt mótmæli en þeir vilja losna við Peter Lim sem eiganda spænska félagsins.
Stuðningsmenn Valencia hafa reglulega skipulagt mótmæli en þeir vilja losna við Peter Lim sem eiganda spænska félagsins. AFP/ JOSE JORDAN

Eigandi spænska fótboltafélagsins Valencia er ekki einn af þeim vinsælu. Hann er heldur ekkert að auka vinsældir sínar með nýjustu ákvörðun sinni.

Peter Lim, eigandi Valencia, réð nefnilega son sinn Kiat sem nýjan forseta félagsins.

Kiat tekur við starfi Layhoon Chan sem hætti á dögunum. Báðir fegðarnir hafa verið sjaldgæf sjón á leikjum liðsins.

Stuðningsmenn Valencia hafa verið að mótmæla stjórnarháttum Peter Lim í mörg ár en hann er frá Singapúr.

Milljarðamæringurinn keypti spænska félagið árið 2014 en stuðningsmenn halda því fram að hann sýni félaginu engan áhuga. Þúsundir stuðningsmanna Valencia héldu mótmælafund fyrir 3-2 tapleik á móti Las Palmas í október.

Kiat Lim er samt vel kunnugur öllum málum hjá Valencia enda hefur hann verið framkvæmdastjóri félagsins frá 2022. Þrátt fyrir það þykir hann ekki sjást mikið í borginni, ekki frekar en faðir sinn.

Inn á vellinum gengur líka illa. Valencia er bara í átjánda sæti eftir 3-3 jafntefli á móti Osasuna um helgina. Liðið er með jafnmörg stig en lélegri markatölu en Las Palmas sem situr í síðasta örugga sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×