Bæði Píratar og Vinstri grænir duttu af þingi í kosningunum í lok nóvember. Vinstri græn höfðu verið á þingi frá stofnun flokksins árið 1999 og Píratar frá árinu 2013. Þegar flokkarnir voru hvað stærstir voru VG með fjórtán þingmenn og Píratar tíu. Fulltrúar VG á sveitarstjórnarstigi eru níu og Píratar eiga þrjá.
Nú taka við öðruvísi tímar hjá flokkunum tveimur, sérstaklega Vinstri grænum, sem fengu einungis 2,4 prósent atkvæða í þingkosningunum og eiga því ekki rétt á úthlutun fjár úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka. Næstu skref flokksins verða ákveðin á flokksráðsfundi 22. febrúar.
„Við erum að horfa fram á veruleika þar sem við erum að færa okkur yfir í að vera meiri grasrótarsamtök en við höfum verið undanfarin ár. Hver nákvæm framtíð hreyfingarinnar er verða almennir félagar að ákveða á þessum flokksráðsfundi og næstu fundum eftir það,“ segir Ragnar Auðun Árnason, framkvæmdastjóri Vinstri grænna.

Sem stendur eru þrír starfsmenn á launum hjá flokknum. Ljóst er að seinna á árinu verði þeir núll og bróðurpartur starfsins fari fram í sjálfboðaliðavinnu. Það hafi verið ákveðið áfall fyrir flokkinn að vera undir tveimur og hálfu prósenti.
„Ég held að það sé ákveðin depurð, sjokk, en líka smá spenningur um hvað gerist næst,“ segir Ragnar. „Ég held að framtíðin verði að leiða það í ljós hvað verður bæði um hreyfinguna og vinstrið á Íslandi.“