Fótbolti

Enn eitt skráningarvesenið hjá Börsungum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það lítur út fyrir að Dani Olmo fái ekki að spila með Barcelona í spænsku deildinni á nýju ári.
Það lítur út fyrir að Dani Olmo fái ekki að spila með Barcelona í spænsku deildinni á nýju ári. Manuel Queimadelos/Quality Sport Images/Getty Images

Dani Olmo, leikmaður Barcelona, gæti þurft að sitja hjá á seinni hluta tímabils vegna enn eins skráningarvesens félagsins.

Hinn 26 ára gamli Olmo gekk til liðs við Barcelona frá RB Leipzig í ágúst á þessu ári. Félagið þurfti hins vegar að nýta sér glufu í kerfinu til að ná að skrá Olmo inn hjá spænsku deildinni.

Það var ekki nema fyrir meiðsli varnarmannsins Andreas Christensen að Börsungar gátu skráð Olmo til leiks, en fyrir meiðsli Christensen komu reglur spænsku deildarinnar um launakostnað í veg fyrir að Olmo yrði skráður.

Félagið gat hins vegar aðeins skráð Olmo fyrri hluta tímabils. Barcelona sótti um bráðabirgðaleyfi til að fá að skrá leikmanninn út júní á næsta ári, en spænska deildin hefur nú hafnað þeirri beiðni.

Núverandi skráning Olmos átti aðeins að gilda í fjóra mánuði og hún rennur því út þegar nýtt ár gengur í garð. Ef ekkert breytist verður Olmo því ekki gjaldgengur til að spila með Barcelona í spænsku deildinni frá og með 1. janúar næstkomandi.

Dani Olmo hefur leikið 15 leiki fyrir Barcelona í öllum keppnum á yfirstandandi tímabili þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×