Bæjarar sýndu allar sínar bestu hliðar er þeir heimsóttu Bochum í dag. Michael Olise kom gestunum yfir eftir um 15 mínútna leik áður en Jamal Musiala sá til þess að Bayern fór með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið með marki tíu mínútum síðar.
Harry Kane bætti svo þriðja marki Bayern við snemma í síðari hálfleik áður en varamaðurinn Leroy Sane skoraði fjórða mark liðsins á 65. mínútu, aðeins um fjórum mínútum eftir að hann kom inn af bekknum.
Kingsley Coman rak svo smiðshöggið á 71. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan 5-0 sigur Bayern sem trónir á toppi þýsku deildarinnar með 20 stig eftir átta leiki, en Bochum situr sem fastast á botninum með aðeins eitt stig.