Fótbolti

Grikkir vildu ekki spila við Eng­lendinga vegna frá­falls Baldocks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Grikklands tileinkuðu George Baldock sigurinn á Englandi. Eftir leikinn á Wembley stilltu þeir sér upp með treyju hans.
Leikmenn Grikklands tileinkuðu George Baldock sigurinn á Englandi. Eftir leikinn á Wembley stilltu þeir sér upp með treyju hans. getty/Crystal Pix

Leikmenn gríska fótboltalandsliðsins vildu ekki spila leikinn gegn Englandi í Þjóðadeildinni vegna fráfalls Georges Baldock. Hann fannst látinn á heimili sínu í Aþenu á miðvikudaginn, aðeins 31 árs.

Baldock lék tólf leiki fyrir gríska landsliðið en hann gat spilað með því þar sem amma hans var frá landinu. Hann var síðast í landsliðinu í umspilsleiknum gegn Georgíu í mars.

Fráfall Baldocks fékk eðlilega mikið á leikmenn gríska liðsins og þeir voru ekkert áfjáðir í að spila leikinn á Wembley í gær. En þeir gerðu það og unnu frækinn sigur, 1-2. Vangelis Pavlidis skoraði sigurmark Grikklands í uppbótartíma.

„Reglur eru reglur og UEFA hefur ekki annað tækifæri til að láta leikinn fara fram svo við spiluðum,“ sagði miðjumaðurinn Dimitrios Pelkas.

„Við tileinkum George sigurinn. Þegar svona lagað gerist er fótboltinn í öðru sæti. Það mikilvægasta er að vinur okkar féll frá. Við gleymum honum aldrei. Ég var viss um að hann var með okkur þarna uppi og fagnaði sigrinum og hvatti okkur áfram. En ég vil ekki tala um fótbolta. Gærdagurinn [miðvikudagurinn] var mjög erfiður fyrir okkur. Við gátum ekki talað, hlegið eða borðað á hótelinu. Þetta var virkilega erfiður dagur.“

Grikkir hafa unnið alla þrjá leiki sína í riðli 2 í Þjóðadeildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×