Innlent

Synjanir farið úr tíu prósentum upp í tæp sex­tíu á tveimur árum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Flóttamenn frá Venesúela mótmæla við útlendingastofnun í lok síðasta árs.
Flóttamenn frá Venesúela mótmæla við útlendingastofnun í lok síðasta árs. Vísir/Vilhelm

Útlendingastofnun hefur hafnað 1435 umsóknum um alþjóðlega vernd það sem af er ári. Það eru um 56 prósent þeirra umsókna sem stofnunin hefur afgreitt á árinu, sem eru 2551.

Árið á undan synjaði stofnunin 1487 umsóknum, sem er um 42 prósent, en árið þar á undan, 2022, synjaði stofnunin 391 umsókn eða tíu prósent umsókna.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur einnig fram að það sem af er ári hafi 1489 umsóknir um alþjóðlega vernd borist. Árið 2023 voru þær 4164 og 2022 voru þær 4520 talsins.

Bent er á í tilkynningunni að mest hafi munað um Úkraínumenn sem fengu vernd á grundvelli fjöldaflótta. Er þeir væru undanskildir sóttu 2.547 um vernd árið 2023 og 2178 árið á undan, og 535 það sem af er ári.

Þá er bent á að það sem af er ári hafi 1165 einstaklingar farið frá landinu bæði í sjálfviljugri heimför eða þvingaðri, en það erum sjötíu prósent aukning. Stofnunin birtir töflu sem sýnir brottvísanir eftir mánuðum þar sem síðustu tvö ár eru borin saman. Í hverjum mánuði það sem af er ári eru brottflutningarnir fleiri í ár. Munurinn var mestur í júlí, en árið 2023 fóru 47 úr landi í þeim mánuði en í ár 238.

Fjöldi brottflutninga eftir mánuðum árin 2023 og 2024.Stjórnarráðið

Þvingaður brottflutningur hefur aukist um 36 prósent milli ára. Hjá Heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra liggja nú fyrir beiðnir um brottflutning 224 einstaklinga og um 140 slíkar beiðnir eru í vinnslu hjá Útlendingastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×