Fótbolti

Orri tók á því á fyrstu æfingunni á Spáni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri Steinn ferðaðist með leikmannahópi Real Sociedad til Madrid í dag en liðið mætir Getafe á morgun.
Orri Steinn ferðaðist með leikmannahópi Real Sociedad til Madrid í dag en liðið mætir Getafe á morgun. X-síða Real Sociedad

Orri Steinn Óskarsson er mættur til Spánar og tók þátt í sinni fyrstu æfingu með Real Sociedad í dag eftir félagaskiptin í gær.

Orri Steinn Óskarsson varð í gær dýrasti leikmaðurinn sem danska liðið FCK hefur selt þegar hann gekk til liðs við Real Sociedad á Spáni. Spænska liðið greiðir 20 milljónir punda fyrir Orra Stein sem gæti leikið sinn fyrsta leik með félaginu gegn Getafe á morgun en félagið hefur birt leikmannahópinn fyrir leikinn.

„Ég bjóst ekki við því að ég myndi yfirgefa FCK á þessum tímapunkti. Ég skrifaði nýverið undir nýjan samning og bjóst því ekki við að vera á förum. En ég get ekki sagt nei við því að verða aðalframherji í jafn góðu liði og Real Sociedad í jafn sterkri deild og La Liga,“ sagði Orri Steinn í viðtali við vefsíðu FCK í gær.

Í dag birti spænska félagið myndband af æfingu liðsins á X-síðu sinni og þar má sjá Orra Stein ganga inn á æfingavöllinn ásamt öðrum leikmönnum liðsins. Þá sést Orri stilla sér upp á mynd á æfingunni en nýja félagið vill augljóslega sýna stuðningsmönnum sem mest frá nýju stjörnunni.

Eins og áður segir mætir Real Sociedad liði Getafe á útivelli á morgun. Orri Steinn er í leikmannahópi liðsins sem flaug til Madrid og verður forvitnilegt að sjá hvort hann fær tækifæri í sínum fyrsta leik aðeins tveimur dögum eftir félagaskiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×