Íslenski boltinn

Andrea á bata­vegi: „Gott fyrir alla að sjá hana brosandi“

Aron Guðmundsson skrifar
Eðlilega fór um marga þegar að Andrea hneig niður í leik Breiðabliks og FH í gær. Það er því gott að fá fréttir af því núna að hún sé á batavegi
Eðlilega fór um marga þegar að Andrea hneig niður í leik Breiðabliks og FH í gær. Það er því gott að fá fréttir af því núna að hún sé á batavegi Vísir/Anton Brink

Andrea Marý Sigur­jóns­dóttir, leik­maður kvenna­liðs FH í fót­bolta sem hneig niður í leik liðsins gegn Breiða­bliki í gær, er á bata­vegi. Hún undir­gekkst rann­sóknir í gær og í nótt og heilsaði svo upp á liðs­fé­laga sína í morgun.

Frá þessu greinir Guðni Eiríksson, þjálfari FH, í samtali við Vísi en eðlilega fór um marga sem fylgdust með leiknum á Kópavogsvelli í gær þegar að Andrea Marý hneig niður. Hún var með meðvitund og settist upp áður en sjúkrabíll flutti hana á brott.

„Andrea Marý er á batavegi. Hún var í rannsóknum í gærkvöldi og eitthvað inn í nóttina,“ segir Guðni í samtali við Vísi. „Þær rannsóknir munu svo bara halda áfram á næstu dögum. Þetta er eitthvað sem hún er að fást við. Ákveðinn hjartagalli sem við vissum af og lýsir sér þannig að hjartað fer bara á yfirsnúning. Hún er með alls konar ráð til að ná því niður en það gekk engan veginn í gær. Hún átti bara mjög erfitt með sig.“

Það hefur því verið mikill léttir fyrir þjálfara og liðsfélaga Andreu hjá FH að sjá hana í morgun er hún kíkti við á æfingu liðsins.

„Hún kíkti aðeins á okkur áðan og bar sig bara vel. Eðlilega er hún mjög þreytt. Talaði um að henni liði eins og hún væri búin að hlaupa þrjú maraþon. Þetta voru mikil átök fyrir hjartað, líkama og sál í gærkvöldi. Þreyta er því eðlileg eftirköst af því. En hún ber sig bara ótrúlega vel stelpan. Er bara brött á þessari stundu.“

Gott fyrir alla að sjá hana brosandi. Ég vona svo innilega að einhver lausn komi á hennar málum. Þetta er eilífðar barátta hjá henni að reyna að fá bót sinna mála hvað þetta varðar. Ég vona að núna leiði rannsóknir eitthvað jákvætt í ljós. Að það verði hægt að hjálpa henni. Með lyfjagjöf eða öðrum ráðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×