Fótbolti

„Ó­mögu­legt að vinna Real Madrid tvisvar í röð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin De Bruyne og Luka Modric í leik Manchester City og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í fyrra.
Kevin De Bruyne og Luka Modric í leik Manchester City og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í fyrra. getty/Visionhaus

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að leikmenn Real Madrid séu í hefndarhug eftir að hafa tapað fyrir Englandsmeisturunum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili.

City vann Real Madrid, 5-1 samanlagt, í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra og vann svo keppnina í fyrsta sinn. Real Madrid sló City hins vegar út í undanúrslitum á þarsíðasta tímabili.

Liðin mætast á Santiago Bernabéu í fyrri leiknum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Guardiola á von á erfiðum leik.

„Það verður mjög erfitt að endurtaka leikinn. Það er ómögulegt að vinna Real Madrid tvisvar sinnum í röð. Þeir hafa lært og eru í hefndarhug. Þeir eru stoltir,“ sagði Guardiola.

City er ósigrað í 21 leik í Meistaradeildinni í röð, eða síðan liðið tapaði 3-1 fyrir Real Madrid í undanúrslitunum 4. maí 2022.

Leikur Real Madrid og City hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur beint á Vodafone Sport. Á sama tíma hefst leikur Arsenal og Bayern München á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikina hefst á Stöð 2 Sport klukkan 18:35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×