Fótbolti

Bayern styrkti stöðu sína á toppnum með sjötta sigrinum í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir lék fyrsta klukkutíman í öruggum sigri Bayern í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir lék fyrsta klukkutíman í öruggum sigri Bayern í dag. Sebastian Widmann/Getty Images for DFB

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í byrjunarliði Bayern München er liðið vann öruggan 5-0 sigur gegn RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Bayern hafði unnið fimm deildarleiki í röð fyrir leik dagsins, en liðið tapaði síðast stigum í deildinni í 1-1 jafntefli gegn Nürnberg þann 17. desember á síðasta ári.

Glódís Perla stóð vaktina í hjarta varnarinnar hjá Bayern fyrsta klukkutíma leiksins áður en hún var tekin af velli. Þá var staðan þegar orðin 3-0 eftir að Pernille Harder hafði komið Bayern yfir strax á 2. mínútu áður en Lea Schüller bætti tveimur mörkum við á 4. og 19. mínútu.

Pernille Harder bætti svo öðru marki sínu og fjórða marki Bayern við á 64. mínútu og áður en Linda Dallmann innsiglaði sigurinn á þriðju mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því öruggur 5-0 sigur Bayern sem trónir á toppi þýsku deildarinnar með 42 stig eftir 16 leiki, fjórum stigum meira en Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg sem sitja í öðru sæti. RB Leipzig situr hins vegar í 10. sæti með 13 stig, aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×