Fótbolti

Pulisic fékk morð­hótanir eftir leik AC Milan og Lazio

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Pulisic fiskaði tvo leikmenn Lazio af velli með rautt spjald í naumum 1-0 sigri AC Milan.
Christian Pulisic fiskaði tvo leikmenn Lazio af velli með rautt spjald í naumum 1-0 sigri AC Milan. Getty/Giuseppe Maffia

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Christian Pulisic kom mikið við sögu í 1-0 sigri AC Milan á Lazio í ítölsku deildinni um helgina. Það er óhætt að segja að Pulisic hafi ekki verið vinsæll hjá stuðningsmönnum Lazio eftir leikinn.

Lazio endaði leikinn með aðeins átta leikmenn inn á vellinum en tveir fengu rauða spjaldið eftir brot á Pulisic.

Pulisic setti inn færslu á samfélagsmiðlum þar sem sjá mátti hann og liðsfélagana í AC Milan að fagna sigrinum en Bandaríkjamaðurinn fékk að launum heilan helling af ógeðslegum athugasemdum.

Fyrir utan ljótan munnsöfnuð og annað misskemmtilegt þá fékk sá bandaríski einnig morðhótanir.

Það var líka fullt af fólki sem varði hann og þar á meðal liðsfélagi hans Theo Hernández. „Puliiiii. Ég er öryggisvörðurinn þinn,“ skrifaði Hernández.

Luca Pellegrini fékk tvö gul spjöld og þar með rautt á 67. mínútu en bæði komu eftir brot á Pulisic. Matteo Guendouzi fékk aftur á móti beint rautt spjald fyrir brot á Bandaríkjamanninum í uppbótartíma.

Pulisic kom til AC Milan frá Chelsea í sumar en hann hefur skorað sjö mörk og gefið sex stoðsendingar í 25 deildarleikjum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×