Fótbolti

Súrt tap á heima­velli hjá Karó­línu Leu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Karólína Lea var í liði Leverkusen í dag.
Karólína Lea var í liði Leverkusen í dag. Twitter@@femmesfootnews

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var í liði Leverkusen sem tapaði mikilvægum leik í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Leverkusen tók á móti Hoffenheim á heimavelli og var Karólína Lea í byrjunarliði Leverkusen en liðið var í 6. sæti deildarinnar en gat lyft sér upp fyrir Hoffenheim og Werder Bremen með sigri og alla leið í 4. sætið.

Karólína hefur verið að spila vel hjá Leverkusen á tímabilinu og er búinn að skora fimm mörk og gefa fimm stoðsendingar í þrettán leikjum liðsins. 

Leikurinn í dag byrjaði ekki vel fyrir heimakonur í Leverkusen. Hoffenheim komst yfir á fyrstu mínútu eftir sjálfsmark Sylwia Matysik en Nikola Karczewska náði að jafna metin fyrir Leverkusen skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Það var því allt í járnum þegar síðari hálfleikur fór af stað en þar voru það gestirnir sem tryggðu sér stigin þrjú. Fabienne Dongus skoraði á 75. mínútu og Hoffenheim því áfram í 4. sætinu og er nú sex stigum á undan Karólínu Leu og liðsfélögum hennar.

Karólína Lea er í íslenska landsliðinu sem leikur gegn Serbíu á Kópavogsvelli þann 27. febrúar næstkomandi en leikurinn sker úr um hvort Ísland heldur sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×