Fótbolti

Dýr­mæt stig í súginn hjá Totten­ham gegn Úlfunum

Siggeir Ævarsson skrifar
Joao Gomes fagnar opnunarmarki leiksins
Joao Gomes fagnar opnunarmarki leiksins Vísir/Chloe Knott - Danehouse/Getty

Joao Gomes var hetja Úlfanna gegn Tottenham í dag þegar liðið sótti þrjú stig í ferð sinni til Lundúna. Gomes skoraði bæði mörk liðsins sem jafnframt voru fyrstu deildarmörk hans fyrir Úlfanna þetta tímabilið.

Fyrri hálfleikurinn var nokkurn veginn stál í stál en á 42. mínútu kom Joao Gomes gestunum yfir með góðu marki úr hornspyrnu.

Dejan Kulusevski jafnaði metin strax í upphafi seinni hálfleiks en þar fyrir utan sköpuðu heimamenn sé fá færi. Tottenham var mun meira með boltann í leiknum en Úlfarnir vörðust gríðarlega vel og beittu skyndisóknum sem Tottenham gekk brösulega að verjast. 

Upp úr einni slíkri skoruðu Úlfarnir annað mark, og aftur var það Joao Gomes á ferðinni. Eftir hornspyrnu frá Tottenham brunuðu gestirnir í sókn og Gomes skoraði sitt annað mark í leiknum sem jafnframt reyndist sigurmarkið. 

Mikilvæg stig í súginn hjá Tottenham sem er í harði baráttu um Evrópusæti, sex stigum á undan Manchester United og tveimur stigum á eftir Aston Villa, en United á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×