Fótbolti

Hvar endar Albert í dag?

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson hefur slegið í gegn í ítölsku A-deildinni í vetur.
Albert Guðmundsson hefur slegið í gegn í ítölsku A-deildinni í vetur. Getty

Ítalska knattspyrnufélagið Fiorentina hefur ekki gefist upp í tilraunum sínum við að landa Alberti Guðmundssyni sem mögulega skiptir um félag í dag.

Albert hefur farið á kostum með liði Genoa í ítölsku A-deildinni í vetur og meðal annars skorað níu mörk í 20 deildarleikjum.

Helsti félagaskiptafréttamaður heims, Fabrizio Romano, greinir frá því nú í morgun að nýjasta tilboð Fiorentina í Albert hafi hljóðað upp á 22 milljónir evra, jafnvirði tæplega 3,3 milljarða króna. Því tilboði hafi Genoa hafnað í gær.

Í dag er lokadagur félagaskiptagluggans á Ítalíu og Fiorentina þarf því að hafa hraðar hendur ætli félagið að finna leið til að kaupa Albert.

Romano segir að Genoa íhugi ekki einu sinni tilboð sem séu undir 25 milljónum evra, og hafi upphaflega farið fram á 30 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×