Íslenski boltinn

Barbára til Breiðabliks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barbára Sól Gísladóttir er komin í Kópavoginn.
Barbára Sól Gísladóttir er komin í Kópavoginn. vísir/hulda margrét

Fótboltakonan Barbára Sól Gísladóttir er gengin í raðir Breiðabliks frá Selfossi. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við Kópavogsfélagið.

Barbára er uppalinn á Selfossi og hefur leikið þar allan sinn feril ef frá er talinn seinni hluti ársins 2022 þegar hún spilaði með Bröndby í Danmörku. Barbára varð bikarmeistari með Selfossi 2019.

Alls hefur Barbára, sem er 22 ára, spilað 92 leiki í efstu deild og skorað níu mörk. Hún getur spilað sem bakvörður, kantmaður og framherji.

Barbára hefur leikið þrjá A-landsleiki og 36 leiki fyrir yngri landsliðin, meðal annars tvo fyrir U-23 ára landsliðið.

Breiðablik hefur verið duglegt að safna liði eftir að síðasta tímabili lauk. Auk Barbáru eru Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir, Anna Nurmi og Kristín Magdalena Barboza komnar til Blika auk þjálfarans Niks Anthony Chamberlain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×