Fótbolti

Vinahöll Svía verður að Jarðarberjahöll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jarðarberið mun verða einkenni Þjóðarleikvangs Svía frá og með júlí.
Jarðarberið mun verða einkenni Þjóðarleikvangs Svía frá og með júlí. Getty/Doaa Adel

Þjóðaleikvangur Svíþjóðar hefur heitið Friends Arena eða Vinahöll síðan hann var tekinn í notkun fyrir tólf árum. En það breytist í sumar.

Norski milljarðamæringurinn Petter Stordalen hefur keypt nafnaréttinni á leikvanginum. Hann ákvað að leikvangurinn skildi heita eftir fyrirtæki hans og verður því hér eftir kallaður Strawberry Arena eða Jarðarberjahöll.

Nafnabreytingin mun taka gildi 12. júlí í sumar. Strawberry er ein stærsta hótelkeðja á Norðurlöndum en innan hennar eru 240 hótel í Skandinavíu, Finnlandi og Eystrasaltslöndunum.

Það er óhætt að segja að nafnabreytingin hafi vakið upp viðbrögð í sænsku íþróttalífi.

„Þetta er ekki okkar leikvangur þannig að þetta skiptir mig engu. Ég er samt þakklátur fyrir það að okkar leikvangur þurfi ekki að bera þetta nafn,“ sagði Bosse Andersson, íþróttstjóri AIK, eitt af stóru liðunum í Stokkhólmi.

AIK spilar heimaleiki sína á Friends Arena og hefur gert það frá árinu 2013.

„Það ætti að skíra þessa höll Zlatan höllina. Hann bjó til svo mikla sögu á þessum velli. Eða AIK höllina. Ég geri mér samt grein fyrir því að Zlatan er stærri en AIK,“ sagði Martin Mitumba sem er goðsögn hjá AIK.

„Því miður er þetta bara svona í nútímafótbolta. Við sem erum nostalgískir eigum erfitt með að breyta um nafn á leikvöngum. Við viljum hafa nafnið eins og það hefur alltaf verið. Peningar ráða bara öllu í dag,“ sagði Alexander Axén, sérfræðingur hjá Discovery+.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×