Fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar, sem fékk málið á sitt borð eftir kæru Ragnars, að Ragnar hafi hannað og látið framleiða eitt þúsund eintök af salt- og piparstaukum úr postulíni. Á staukana var annars vegar letrað „Guilt“ og hins vegar „Fear“, eða „sekt“ og „ótti“ upp á íslensku.
Staukarnir voru hluti af listasýningum í New York í Bandaríkjunum annars vegar og í Danmörku hins vegar. Að sýningu lokinni hafi Ragnar óskað eftir því að hluti innsetningarinnar yrði brotinn niður í stök pör sem almenningur hefði tök á að kaupa í gjafaöskjum. Skipulagði Ragnar innflutning á hundrað pörum til Íslands. Fyrst til að sýna og svo til að selja.

Ragnar tilgreindi innflutningsverð upp á 50 þúsund dollara þar sem til hafi staðið að selja hvert par á 500 dollara. Við tollafgreiðslu voru staukarnir ásamt gjafaöskjum flokkaðir af tollgæslu sem borðbúnaður og eldhúsbúnaður en ekki sem listaverk.
Tollalög heimila innflutning á listaverkum sem listamenn flytja inn sjálfir án þess að greiddur sé virðisaukaskattur. Ragnar reiknaði með því að salt- og piparstaukarnir yrðu flokkaðir þannig en tollstjóri féllst ekki á það. Ekki væri um að ræða frumgerð listaverks heldur fjöldaframleiddar endurgerðir.
Yfirskattanefnd féllst á það með tollstjóra að nytjamunir sem eigi sér hliðstæður í almennri verslunarvöru gætu ekki talist sem listaverk. Um væri að ræða fjöldaframleidda endurgerð sem hafi einkenni verslunarvöru.
Nefndin féllst þó á að miða ætti við framleiðslukostnað salt- og piparstaukanna, upp á 71,5 dollara frekar en 500 dollara söluverðið.