FCK vann dramatískan sigur á United, 4-3, í A-riðli Meistaradeildarinnar í fyrradag. Hinn sautján ára Roony Bardghji skoraði sigurmark danska liðsins undir lok leiksins.
United komst í 0-2 í leiknum á Parken með tveimur mörkum Rasmusar Højlund. Mohamed Elyounoussi minnkaði muninn fyrir FCK og dönsku meistararnir fengu svo vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
FCK fékk einnig víti í fyrri leiknum gegn United en André Onana varði þá frá Jordan Larsson. Áður en Svíinn tók spyrnuna átti Garnacho við vítapunktinn og traðkaði á honum. Argentínumaðurinn reyndi svo að endurtaka leikinn á Parken en það hafði ekki sömu áhrif og á Old Trafford.
Denis Vavro, varnarmaður FCK, fannst ekki mikið til uppátækis Garnachos koma og gagnrýndi hann eftir leikinn.
„Ég sá að hann reyndi að eiga eitthvað við vítapunktinn en Kevin Diks stóð fyrir framan hann og hindraði hann. Þetta er í annað sinn sem hann gerir þetta. Og á okkar heimavelli. Fyrir mér er hann trúður,“ sagði Vavro.
„Hann er með hugarfar smábarns. Það er eitt að gera þetta á 97. mínútu á heimavelli en að gera þetta í fyrri hálfleik hérna. Ég skil hann ekki.“
Vavro er ekki eini leikmaður FCK sem hefur gagnrýnt United-menn eftir leikinn á miðvikudaginn. Elyounoussi sagði meðal annars að Bruno Fernandes, fyrirliði United, væri sívælandi.
United er á botni A-riðils Meistaradeildarinnar með þrjú stig þegar tveimur leikjum er ólokið. United á eftir að mæta Bayern München á heimavelli og Galatasaray á útivelli.