Arsenal-menn voru fastir á Luton flugvellinum í fjóra klukkutíma vegna storma sem geysuðu á Englandi. Þeir komu því seinna til Frakklands en áætlað var. Arsenal átti að lenda í Lille síðdegis og keyra síðan í fjörutíu mínútur til Lens.
Blása þurfti blaðamannafund Mikels Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, af vegna seinkunarinnar.
Arsenal sleppur hins vegar við sekt frá UEFA fyrir að mæta of seint á leikstað þar sem seinkunin var ekki þeim að kenna.
Arsenal er með þrjú stig í B-riðli eftir 4-0 sigur á PSV Eindhoven í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í þarsíðustu viku. Á sama tíma gerði Lens 1-1 jafntefli við Sevilla.
Leikur Lens og Arsenal hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.