Í kvöldfréttum í gær hittum við fjölda hælisleitenda frá Venesúela, sem sögðust hræddir og reiðir eftir að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði að heimilt væri að synja umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi.
Þeim þótti furðulegt að á sama tíma og íslensk stjórnvöld meti stöðuna í Venesúela örugga hafi Bandaríkjamenn komist að þveröfugri niðurstöðu í svipaðri úttekt. Þeir meta ástandið það alvarlegt að framlengja skuli tímabundna vernd Venesúelamanna í landinu um átján mánuði.
Treystir nefndinni
Fréttastofa ræddi við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um þennan mun í dag. Hún segist treysta niðurstöðu kærunefndarinnar.
„Ég get eingöngu treyst á niðurstöðu Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Þessar tvær stofnanir hafa lagt mat á ástandið. Ég ætla líka að minna á það að löndin í kringum okkur hafa ekki verið að veita íbúum frá Venesúela þessa viðbótarvernd sem við höfum verið að gera. En ég get ekki gert annað en treyst Útlendingastofnun og kærunefndinni,“ segir Guðrún.
Leggja í hættulegt ferðalag
Flestir flóttamenn vilji snúa aftur heim þegar þar er öruggt að búa.
„Við verðum alltaf að hafa það í huga að við Íslendingar höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar hvað varðar flóttamenn. Það inniber að ákveðnum tíma liðnum geti fólk snúið til baka til sín heimaríkis, það er partur af hugmyndafræðinni og partur af kerfinu,“ segir Guðrún.
Síðasta áratug hafa um það bil 7,3 milljónir manna flúið Venesúela. Sá fjöldi samsvarar nítjánfaldri íslensku þjóðinni. Margir sem flýja landið leggja í hættulegt ferðalag gegnum alla Mið-Ameríku og freista þess að komast til Bandaríkjanna.