Fótbolti

Leikmenn United séu með rétt hugarfar en efast um gæðin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fary Neville efast um gæði leikmannahóps Manchester United.
Fary Neville efast um gæði leikmannahóps Manchester United. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, hefur trú á því að leikmenn liðsins séu með rétt hugarfar undir stjórn Erik ten Hag. Hann efast þó um að þeir séu nógu góðir.

Gengi Manchester United hefur verið slakt í upphafi tímabils og liðið er með sex stig eftir fyrstu fimm leikina. United mátti þola 1-3 tap á heimavelli gegn Brighton & Hove Albion um helgina og segir Neville að slæm byrjun liðsins á tímabilinu sé vegna þess að leikmenn liðsins séu einfaldlega ekki nógu góðir frekar en að þeir séu ekki að leggja sig fram.

Manchester United eyddi rúmum 180 milljónum punda í leikmenn í sumar og Neville segir enn frekar að þeir leikmenn sem hafi verið keyptir til liðsins hafi ekki bætt hópinn nægilega mikið. Félagið fékk þá Rasmus Hojlund, Andre Onana, Mason Mount, Sofyan Amrabat, Sergio Reguilon, Jonny Evans og Altay Bayindir í sumarglugganum.

„Ég hafði áhyggjur þegar tímabilið byrjaði. Fólk talaði um að Manchester United hefði klárað sín kaup snemma og að það væri gott, en ég hafði áhyggjur af því að þeir leikmenn sem voru fengnir inn væru ekki nógu góðir til að bæta hópinn frá því á síðasta tímabili,“ sagði Neville í síðasta hlaðvarpsþætti sínum.

„Það hvarflaði aldrei að mér að þeir væru að fara að berjast við Manchester City eða Arsenal miðað við þá leikmenn sem fengnir voru inn. Þeir hefðu þurft að fá leikmann eins og Harry Kane eða Declan Rice til að það væri möguleiki.“

„Þeir eru bara ekki mjög góðir í augnablikinu, en ég fór á leikinn á móti Brighton og vonaðist til að þeir myndu koma mér á óvart. En það voru 72.000 stuðningsmenn á Old Trafford, sem vita vel hvernig lið Brighton er, og ég held að enginn þeirra hafi verið hissa á því sem þeir sáu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×